Sagan okkar

Sendibílastöðin hf. var formlega stofnuð 29. júní 1949. En stofnun Stöðvarinnar átti sér nokkurn aðdraganda. Eftir að heimsstyrjöldinni lauk fóru eiginlegir sendibílar að tíðkast. Eigendur þessara bíla stunduðu þennan rekstur sjálfstætt hver í sínu lagi. Ekki voru þessar bifreiðar stór farartæki, flestar voru af gerðunum Bradford og Fordson. Ætla má að burðargetan hafi verið um hálft tonn. Áður en sendibifreiðarnar komu til sögunnar fóru svo til allir flutningar fram á opnum vörubifreiðum. Mörgum þótti það ekki vansalaust að flytja jarðneskar eigur sínar á opnum palli, útsettum fyrir veðri og vindum, ryki og óþrifnaði. Sendibílarnir voru því nýjung sem margir fögnuðu. Sumir vörubílstjórar litu þó þessa samkeppni óhýru auga og sendibílstjórar fengu ekki inngöngu í félagsskap vörubílstjóra. Þá var stofnað félagið Neisti, félag sendibílstjóra er síðar breyttist í Trausta, félag sendibílstjóra, er breyttist svo í Landssamband sendibifreiðastjóra. Þann 1. júní 2006 hætti Landsamband Sendibifreiðastjóra starfsemi sinni.

Sagan
Sumarið 1948 hóf athafnamaðurinn Kristján Fr. Guðmundsson skipulega sendibílaþjónustu. Sendibílastöð Kristjáns var í fyrstu staðsett við Skólavörðuholtið ekki fjarri Leifsstyttunni. Þá sáu aðrir sem þessa atvinnu stunduðu að ekki gengi það lengur að hver væri að pukrast í sínu horni. Eftir ýmsar bollaleggingar og samtöl manna í millum var stofnfundur Sendibílastöðvarinnar hf. haldinn í Breiðfirðingabúð miðvikudaginn 29. júní 1949. Hlutafélagið keypti Sendibílastöð Kristjáns með gögnum hennar og gæðum og síðast en ekki síst símanúmeri, 5113. Hluthafar voru í upphafi 20, hver skráður fyrir 200 króna hlutabréfi. Í byrjun voru stöðvargjöld 206 krónur á mánuði. Hinn 22. janúar 1956 voru 14 nýir hluthafar samþykktir og í apríl árið 1966 var fjöldi hlutabréfa aukinn í 60 og í maí sama ár var enn fjölgað um 40 hluti. Í dag eru hlutabréfin 100. Frá og með 1. desember 1954 áttu allar bifreiðar á Stöðinni að vera útbúnar gjaldmælum, áður hafði greiðsla verið ákvörðuð eftir tímamælingu. Talstöðvar komu í bifreiðarnar á árunum 1966-67 og farsímar árið 1986. Í október 2005 var bílstjórum Sendibílastöðvarinnar gert skylt að geta tekið á móti rafrænum greiðslum.

Aðsetur
Sendibílastöðin hf. var í upphafi staðsett í Ingólfsstræti 11, þar sem nú er Iðnaðarmannahúsið svonefnda. Árið 1956 fluttist Sendibílastöðin hf. í Borgartún 21, í byrjun var aðeins byggð timburskemma og Sendibílastöðin nýtti aðeins hluta þess húsnæðis en leigði vöruflutningabifreiðum aðstöðu. Fljótlega eftir flutninginn í Borgartún var byggð viðbygging við skemmuna og var þar skrifstofa og aðstaða fyrir bílstjóra. Símanúmer Stöðvarinnar var á þessum árum 24113. Árið 1968 var nýtt húsnæði tekið í notkun í Borgartúninu. Árið 1969 fékk Stöðin nýtt símanúmer 25050. 1982 komst loks þjónustuhús í gagnið, þar sem bílstjórar gátu sinnt viðhaldi bifreiða. Árið 1990 keypti Sendibílastöðin hf. lóð að Nethyl 1 og hóf byggingu á iðnaðarhúsnæði er var leigt út allt til ársins 1996 þá var það húsnæði selt. Símanúmerið breyttist árið 1995 í 552 5050. 26. mars árið 1999 flutti Sendibílastöðin hf. í Klettagarða 1 og símanúmerið breyttist í 553 5050. Í mars 2004 lagði Sendibílastöðin Þröstur niður starfsemi sína og gengu Þrastarmenn til liðs við Sendibílastöðina sem þjónar nú undir 2 símanúmerum þ.e. 553 5050 og 533 1000.

Starfsemin
Árið 2001 breyttist starfsumhverfi Sendibílastöðva þar sem ekki var lengur skylda fyrir atvinnubílstjóra að vera á viðurkenndum sendibílastöðvum og bannað að hafa samráð með gjaldskrá, þ.e. allir gátu ákveðið sinn taxta. Til verndar viðskiptavinum er Sendibílastöðin með hámarksökutaxta. Á viðurkenndum sendibílastöðvum eru vissar reglur sem sendibílstjórar verða að fara eftir. Tekið er við kvörtunum ef eitthvað kemur upp á í samskiptum viðskiptavina og sendibílstjóra.
Í tímans rás hafa bílar og atvinnutæki breyst allmikið. Stærri og burðarmeiri bílar, aftanívagnar, betri vinnutæki, t.d. búslóðalyftur, rafmagnstjakkar, rafmagnströpputrillur svo eitthvað sé nefnt. Flytjum fyrirtæki, píanó, peningaskápa, búslóðir. Allt frá umslagi upp í stórflutninga. Einkunnaorð okkar eru: „Bílstjórarnir aðstoða“. Aðstoð bílstjóranna er innifalin í gjaldskrá Sendibílastöðvarinnar. Allir okkar bílstjórar eru sjálfstæðir verktakar á sínum eigin bílum. Starfa eftir reglum stöðvarinnar og með sameiginlega símsvörun í símum 553 5050 og 533 1000.